Gengi hlutabréfa í spænska bankanum Bankia á Spáni hrundi um rúm 20% í fyrstu viðskiptum dagsins. Þetta var jafnframt fyrsti dagurinn með hlutabréf bankans eftir að hlutafé hans var aukið um 11,5 milljarða evra. Þetta var liður í bankabjörgun spænska ríkisins. Gengið í lægst í um 50 evrusent á hlut. Það jafnaði sig aðeins eftir því sem leið á daginn.

Erlendir fjölmiðlar segja vandræðaganginn hjá Bankia lýsandi fyrir stöðu spænskra fjármálastofnana. Bankinn tapaði svimandi fjárhæðum þegar fasteignabólan á Spáni sprakk árið 2007 en það leiddi til þess að spænska ríkið varð að leggja honum til 15,5 milljarða evra. Breska dagblaðið Financial Times segir í umfjöllun sinni um Bankia að staðan sé svo slæm að bankinn og móðurfélag hans, BFA, hafi sogað til sín rúman helminginn af þeim 42 milljörðum evra björgunarlánum sem stjórnvöld á Spáni fengu hjá Evrópusambandinu til að koma bönkum landsins á réttan kjöl.

Þá rifjar blaðið upp að aðeins eru liðin um tvö ár síðan hlutabréf Bankia voru skráð á markað á Spáni á útboðsgenginu 3,75 evrur á hlut. Það hafi ekki verið hamingjusamur tími fyrir þá sem 350 þúsund hluthafa sem keyptu bréfin enda var gengi hlutabréfa Bankia komið niður í eitt evrusent á hlut í mars síðastliðnum þegar bankinn féll í fang ríkisins.