Gengi hlutabréfa færeyska bankans BankNordik féll um 3,68% í fremur litlum viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Þá lækkaði gengi hlutabréfa Icelandair Group um 1,68% og Marel um 1,44%. Gengi bréfa Haga lækkaði um 0,28% á sama tíma og fór undir 18 krónur á hlut. Það hefur ekki verið lægra síðan í lok júní.

Á móti gengislækkun fjögurra félaga á markaði hækkaði gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins um 0,82% og stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,5%.

Þessi hækkun dugði hins vegar skammt og lækkaði Úrvalsvísitalan um 0,51%. Hún endaði í 989,27 stigum. Hún hefur hækkað um rúm 8,7% frá áramótum.