Hlutabréf Honest Company, sem var stofnað af leikkonunni Jessicu Alba árið 2011, hafa lækkað um 76% frá skráningu á markað í maí á síðasta ári. Markaðsvirði fyrirtækisins nemur um 345 milljónum dala eða um 47 milljörðum króna en félagið var metið á 1,5 milljarða dala í frumútboðinu í fyrra.

Honest Co. selur barnavörur á borð við bleyjur, blautþurrkur og sjampó ásamt snyrti- og hreinsivörum. Fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á að nota eiturefnalaus efni í vörunum sínum, sérstaklega í barnavörum.

Honest Co. tapaði 10 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 1,4 milljörðum króna. Tekjur félagsins jukust um 5,3% á milli ára og námu 78,5 milljónum dala eða um 10,7 milljörðum króna. Tekjuvöxt Honest má einkum rekja il aukinnar sölu á bleyjum og blautþurrkum.

Virði eignarhlutar Alba var um 96 milljónir dala við útboð Honest í fyrra. Eignarhlutur hennar er nú ríflega 21 milljón dala að virði í dag eða sem nemur nærri þremur milljörðum króna. Alba situr í stjórn Honest og tók einnig sæti í stjórn Yahoo í júní síðastliðnum.

Áhuginn kviknað út af veikindum í barnæsku

Alba lýsti því í aðdraganda frumútboðsins að áhugi hennar á hreinlætisvörum stafi af veikindum hennar í barnæsku. Hún sagðist hafa átt við langvinn veikindi, alvarlegan astma og ofnæmi og hafi þurft að verja miklum tíma á sjúkrahúsum.

„Það voru engar varanlegar lausnir á heilbrigðisvandamálum mínum og þegar ég var tíu ára áttaði ég mig á því við því hvernig heilsa getur einkennt líf manns,“ skrifar Alba.

Hugmyndin að fyrirtækinu kom árið 2008 þegar hún var ólétt af fyrsta barninu sínu og móðir hennar gaf henni þvottaefni frá stóru fyrirtæki sem gaf henni útbrot. Í kjölfarið fór hún að rannsaka allar vörur í baðherberginu sínu, staðráðin í að barnið hennar þyrfti ekki að upplifa sömu veikindi og hún.

„Hvernig getur þetta verið öruggt fyrir börn ef ég fæ svona útbrot,“ sagði Alba í viðtali við Forbes árið 2015. Hún sagðist hafa komst að því að jarðolíuefni (e. petrochemicals), formaldehýð og eldtefjandi efni væru í hefðbundnum heimilisvörum líkt og gólfhreinsiefnum og í dýnum.

Hún sagðist hafa orðið óþreyjufull að leita að náttúrulegum og umhverfisvænum vörum sem voru ekki rándýrar og hannaðar fyrir eðlilegt fólk. Eftir að hafa leitað að viðskiptafélögum í þrjú ár hóf fyrirtækið starfsemi árið 2012. Tekjurnar námu 10 milljónum dala á fyrsta rekstrarárinu 2012. Tveimur árum síðar voru tekjurnar orðnar 150 milljónir dala.