Hlutabréfaverð bandarísku smávöruverslanakeðjunnar Bed Bath & Beyond (BBBY) hækkaði um 58% í dag en almennir fjárfestar, sem hafa keyrt upp gengi félagsins síðustu daga, tóku fel í að Ryan Cohen, stjórnarformaður GameStop, keypti kauprétti í félaginu. Stöðva þurfti viðskipti með hlutabréf BBBY nokkrum sinnum dag, að því er kemur fram í frétt CNBC.

Bed Bath & Beyond er nýjasta jarmhlutabréfið (e. meme stock) á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Félagið var mest leitaða fyrirtækið á undirvefsíðunni /Wallstreetbets á samfélagsmiðlinum Reddit í síðustu viku.

Sjá einnig: Nýjasta jarmhlutabréfið

Ryan Cohen greindi frá því í mars að hann ætti ríflega 10% hlut í BBBY. Í dag var birt kauphallartilkynning um að fjárfestingarfyrirtækið hans, RC Ventures, hefði keypt kauprétti að 1,6 milljónum hluta í BBBY sem eru gildir til janúar 2023 með lausnarverð á bilinu 60-80 dölum. Gengi félagsins stóð í 26 dölum á hlut við lokun markaða í dag.

Þá er um helmingi þess fjölda bréfa þess sem virk viðskipti eru með, svokallað flot, í skortstöðu. Hækkun á gengi félagsins leiddi því til skortsöluþvingunar (e. short squeeze) þar sem skortsalar fóru kaupa hlutabréf í BBBY til að loka skortstöðum sínum og koma þannig í veg fyrir frekara tap.

Rekstur Bed Bath & Beyond hefur gengið erfiðlega á síðustu misserum og hefur velta félagsins dregist saman. Félagið er einnig að leita af nýjum forstjóra eftir að Mark Tritton hætti hjá félaginu í júní.