Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur skilað 20,3% nafnávöxtun frá áramótum og ber höfuð og herðar yfir aðra innlenda fjárfestingakosti, segir greiningardeild Glitnis. Bendir hún á að peningamarkaður hefur skilað 3,8% nafnávöxtun á sama tíma en skuldabréf lægri ávöxtun.

Greiningardeildin yfirvogar peningamarkað og hlutabréf auk þess sem lítil yfirvigt er á stutt verðtryggð skuldabréf.

?Það sem af er ári hefur verðbólga verið um 0,4% og er raunávöxtun fjárfestinga því lægri sem því nemur. Gengi krónunnar hefur styrkst um 6% á sama tíma og helstu erlendu hlutabréfavísitölur hafa hækkað mun minna en innlend hlutabréf.

Fjárfesting í erlendum hluta- og skuldabréfum hefur því skilað lágri ávöxtun mælt í ISK og í raun neikvæðri ávöxtun í mörgum tilvikum. Fyrstu uppgjör félaganna í Úrvalsvísitölunni verða birt eftir um það bil tvær vikur og gerum við í flestum tilvikum ráð fyrir ágætum uppgjörum,? segir greiningardeildin.