Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í 3,9 milljarða króna veltu í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka, eða um 626 milljónir, sem hækkuðu um 2,6%. Gengi Arion stendur nú í 140 krónum á hlut.

Útgerðarfélagið Brim hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 7% í meira en hálfs milljarðs króna veltu. Hlutabréfaverð Brims stendur nú í 84 krónum á hlut. Hlutabréf Síldarvinnslunnar hækkuðu einnig um 3% í 166 milljóna viðskiptum.

Auk þeirra hækkuðu hlutabréf Sjóvá, Eikar, Nova, og VÍS um meira en 3% í dag. Hlutabréfaverð Nova hækkaði um 3,9% í 166 milljóna veltu og stendur nú í 4,02 krónum. Ný stjórn Nova var kjörin á aðalfundi fjarskiptafélagsins í gær en athygli vakti að sitjandi stjórnarformaðurinn Hugh Short var ekki kjörinn.