Hlutabréf hækkuðu á flestum stöðum í Evrópu við opnun markaða í morgun en sú hækkun hefur gengið að mestu til baka og standa flestar vísitölur ýmist í stað eða sýna nú rauðar tölur.

Þannig hefur FTSEurofirst 300 vísitalan hækkað um 0,1% í morgun en hafði hækkað um allt að 0,4%. Vísitalan lækkaði um 2,1% í gær.

Þá virðist olíuverð ætla að taka við sér og hækka á ný. Í kjölfarið hafa olíufélög hækkað en í morgun hefur BP hækkað um 2%, Total um 1,5% og Shell um 1%.

Annars hefur FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hækkað um 0,5% á meðan AEX vísitalan í Amsterdam stendur í stað.

Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,4%, í París hefur CAC 40 vísitalan einnig lækkað um 0,4% og Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,1%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,3%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,1% en í Osló hefur OBX vísitalan aftur á móti hækkað um 1,5%.