Hlutabréf lækkuðu almenn í Evrópu í dag með nokkrum undantekningum. Þar sem lækkun átti sér stað var hún innan við 1%.

Bankar og fjármálafyrirtæki leiddu lækkun bréfa í dag en fréttir af slæmri afkomuspá Deutsche Bank hafði þónokkur áhrif á markaði að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá lækkuðu lyfjafyrirtæki einnig eftir að greiningadeild Morgan Stanley sagði verð á lyfjafyrirtækjum í Evrópu ofmetið. Lyfjafyrirtækin Novartis, GlaxoSmithKline og AstraZeneca lækkuðu á milli 2-4,5% í kjölfarið.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,6% í dag. Vísitalan hækkaði um 3,2% í gær en er samt á sínu versta skeiði frá því um mitt ár 2002 að sögn Reuters.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum lækkaði um 0,5%. Þá lækkaði DAX vísitalan í Frankfurt um 0,54% og CAC40 vísitalan í París um 0,3%.

Hins vegar hækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 0,25%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,3% og OBX vísitalan í Osló um 0,95%.

„Mitt álit er að markaðurinn sé í góðum málum en neikvæðar fréttir hafa augljóslega mikil áhrif á markaði. Því má vel efast um styrk markaða þegar þeir sveiflast til og frá við neikvæðar fréttir. Nú veit maður aldrei hvernig fréttir maður fær á morgnana,“ sagði Roger Noddings, sviðstjóri fjárfestinga hjá HSBC í samtali við Reuters.