*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 29. apríl 2021 17:50

Hlutabréf draga vagninn hjá VÍS

Hlutabréfasafn VÍS hækkaði um 17,6%, á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS
Eyþór Árnason

Hagnaður Vátryggingafélags Íslands, VÍS, eftir skatta var um 1,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 1,9 milljarða tap á sama tímabili árið áður og er því um að ræða viðsnúning upp á rúma fjóra milljarða króna milli ára. Hagnaðurinn í ár skýrist aðallega af fjárfestingatekjum félagsins en hlutabréfasafn VÍS stækkaði um 17,6% á fjórðungnum. Þetta kemur fram í árshlutareikningi VÍS. 

Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru um 2,5 milljarða króna en voru neikvæðar um 162 milljónir árið áður. Gangvirðisbreytingar leiddu til 1,8 milljarða króna hækkunar á hlutabréfasafni VÍS á fjórðungnum sem vó um 78% af fjárfestingatekjum félagsins en miklar hækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum undanfarið ár. Gangvirðisbreytingar hlutabréfa lækkuðu um 865 milljónir króna á sama tíma í fyrra eða um það leyti sem Covid faraldurinn hófst. 

„Árið 2021 fór vel af stað í fjárfestingunum ─ en árangurinn í fjórðungnum er sá annar besti frá skráningu félagsins,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í tilkynningu félagsins. „Ég er stoltur af góðri afkomu á fjórðungnum en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er langt umfram markmið félagsins.“

Afkoma af vátryggingarekstri á tímabilinu var hins vegar neikvæð um 405 milljónir króna, samanborið við 1,4 milljarða tap árið áðu. Helgi segir að yfirleitt séu fyrstu þrír mánuðir ársins tjónaþungir í tryggingarekstri. Iðgjöld VÍS lækkuðu lítillega milli ára og námu 5,5 milljörðum króna. 

Samsett hlutfall fjórðungsins var 108% á fjórðungnum en var 126,5% á sama tíma í fyrra, sem skýrðist þá að mestu leyti af styrkingu tjónaskuldar. Félagið telur að samsett hlutfall ársins 2021 verði á bilinu 97-99%.

Eigið fé VÍS nam 17,1 milljarði í lok mars. Skuldir félagsins jukust um 4,2 milljarða króna frá áramótum og voru um 42 milljarðar í lok fjórðungsins. Eiginfjárhlutfall VÍS lækkaði því úr 31,0% í 28,9%.

Stikkorð: VÍS