Kauphöll Íslands hefur sent frá sér markaðstilkynningu þar sem fram kemur að hlutabréf Eimskipafélags Íslands hafi hlotið athugunarmerkingu. Er í því samhengi vísað til tilkynningar félagsins sem birt var opinberlega í gær og fréttatilkynningar Samkeppniseftirlitsins sama dag, en starfsmenn félagsins hafa verið kærðir til sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð.

Hlutabréfin eru athugunarmerkt við vísan til vii. liðar í ákvæði 1.1.27 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga. Þar segir að Kauphöllin geti ákveðið að athugunarmerkja hlutabréf félags ef fyrir hendi eru aðstæður sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi félagið eða verðmyndun verðbréfanna.

Markmiðið með athugunarmerkingu er að vekja athygli markaðarins á sérstökum aðstæðum sem tengjast félagi eða hlutabréfum þess sem fjárfestar ættu að gefa gaum. Verðbréf skulu vera athugunarmerkt í takmarkaðan tíma, vanalega ekki lengur en sex mánuði.