Plötuútgáfufyrirtækið EMI hefur gefið út afkomuviðvörun þar sem varað er við samdrætti í plötusölu sem verði til þess að fyrirtækið muni ekki getað staðið við afkomuspá sína, en þetta er önnur afkomuviðvörun fyrirtækisins á fimm vikna tímabili, segir í frétt Reuters.

Hlutabréf í fyrirtækinu féllu mest um 13% í gær og höfðu þá ekki verið lægri í 16 mánuði, en í afkomuviðvöruninni kom fram að búist sé við að tekjur af tónlistarsölu dragist saman um 15% á milli ára í apríl, en í afkomuviðvörun síðasta mánuðar var spáð 6-10% samdrætti. EMI, sem er þriðja stærsta tónlistarfyrirtæki heims, hefur nú endurskoðað afkomuspá sína þar sem markaðsaðstæður í Norður-Ameríku fari síversnandi og hrörni nú á auknum hraða, en tónlistarmarkaðurinn þar mun hafa dregist saman um 20%, samkvæmt mælingu Soundscan.

Sala EMI yfir jólin var langt undir væntingum og var tveimur stjórnendum tónlistararms fyrirtækisins sagt upp í kjölfarið. Í kjölfar uppsagnanna sagði framkvæmdastjóri EMI, Eric Nicoli, að hann myndi taka alla ábyrgð á tónlistarútgáfu fyrirtækisins í framtíðinni. Greiningaraðilum ber ekki saman um skynsemi þeirrar ákvörðunar, þar sem litið er svo á að sérfræðiþekking Nicoli liggi frekar í viðskiptum heldur en í tónlist.

Meðal þeirra tónlistarmanna sem hefur verið undir væntingum fyrirtækisins í sölu er Robbie Williams, að því er kemur fram í fréttinni, en fyrirtækið hefur gert gríðarstóran samning við tónlistarmanninn geðþekka, sem nú ku vera staddur í meðferð.

Löglegt niðurhal á tónlist hefur enn ekki náð að vega upp á móti ólöglegu niðurhali og samdrætti í sölu á geisladiskum. Því kynnti EMI umbótaáætlun fyrirtækisins 12. janúar síðastliðinn og segir núverandi markaðsaðstæður styrki þá í þeirri trú að endurskoða þurfi stefnu fyrirtækisins verulega til lengri tíma. EMI segir að góður árangur hafi þegar náðst í umbótaáætluninni og að fyrirtækið sé á góðri leið með að draga úr kostnaði um sem nemur 14,5 milljörðum króna.

Nokkuð hefur verið um getgátur og vangaveltur varðandi yfirtöku á EMI að undanförnu, en fyrirtækið hafnaði einu slíku boði í desember síðastliðnum, en það mun hafa borist frá fjárfestingarfyrirtækinu Premier. EMI og Warner Music hafa einnig verið í baráttu um yfirtöku hvort á öðru síðastliðin sex ár. Á síðasta ári úrskurðuðu evrópskir dómstólar að fyrirhugaður samruni Sony Music og Bertelsmann væri ólögmætur og ríkir því nokkur óvissa um hvort EMI fái leyfi til slíkra saminga.