Hlutabréf í Evrópu féllu í vikunni, þriðju vikuna í röð. Þetta er lengsta samfellda lækkun í Evrópu frá því í mars og stafar af áhyggjum af því að efnahagsbatinn verði ekki skjótur, að því er segir í frétt Bloomberg.

Atvinnuleysi á evrusvæðinu jókst í 9,5% í maí en var 9,3% í apríl. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist hið sama í júní, 9,5%, og hefur ekki verið hærra frá árinu 1983.

Samdráttur var á evrusvæðinu en hann minnkaði þó fjórða mánuðinn í röð í júní. WSJ hefur eftir gögnum frá Markit Economics að meiri samdráttur í þjónustugeirum bendi til þess að bati á svæðinu verði hægfara.

Mælikvarði á framleiðslu á evrusvæðinu sýndi að samdráttur er enn til staðar, 13. mánuðinn í röð. Framleiðsluvísitala Markit sýnir nú gildið 44,6, en gildi undir 50 þýðir að framleiðsla er að dragast saman.

Evrusvæðið glímir nú einnig við þann vanda að í síðustu mælingu var verðbólga neikvæð um 0,1%, þ.e. verðlag hafði lækkað um 0,1% frá júní í fyrra til sama mánaðar í ár.