Hlutabréfaverð hefur fallið víða um heim í kjölfar hótana Donald Trump Bandaríkjaforseta um viðbótartolla á Kína. Sagði hann í tveimur tístum á samfélagsmiðlinum Twitter að til greina kæmi að hækka tolla á kínverskar vörur fyrir andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala, úr 10% í 25%, auk þess að leggja þá á innflutning fyrir allt að 325 milljarða dala.

Þrátt fyrir þetta segir kínverska utanríkisráðuneytið enn stefnt að því að fulltrúar stjórnvalda þar í landi ferðist til Bandaríkjanna á næstunni fyrir næstu lotu viðræðna um lausn deilunnar sem staðið hefur yfir í um ár núna. Þó segir WSJ að til greina komi að hætta við viðræðurnar sem eiga að hefjast á miðvikudag á ný.

Eru hótanirnar taldar til marks um að tolladeilur ríkjanna séu ekki að nálgast lausn, en greinendur velta fyrir sér hvort um sé að ræða aðferð til að bæta samningsstöðu Bandaríkjanna fyrir viðræðurnar eða hvort raunverulegt merki um að þær séu að renna út í sandinn.

Hruni S&P 500 vísitalan um það mesta sem gerst hefur síðan í marsmánuði,  sem og ýmis tæknifyrirtæki sem reiða sig á viðskipti við kína hafa lækkað í verði. Nefnir Bloomberg fréttastofan þar sem dæmi JD.com, Skyworks, Apple og Caterpillar.

Einnig lækkaði verð á ýmis konar hrávörum, eins og framvirkum samningum með bómul og maís, og sojabaunasamningar stefndu í mestu lækkun á um níu mánaða tímabili.

Framvirkir samningar með Vestur Texas hráolíu lækkuðu um 3,1% og ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa lækkaði meira en þau hafa gert í tvær vikur í kjölfar þess að fjárfestar leituðu í örugga höfn með peningana sína.