*

mánudagur, 15. júlí 2019
Erlent 23. mars 2018 10:52

Hlutabréf falla um allan heim

Í kjölfar yfirlýsinga bandarískra og kínverskra stjórnvalda um gagnkvæma refsitolla heldur hlutabréfaverð áfram að falla.

Ritstjórn
Forsetar Bandaríkjanna og Kína, Donald Trump og Xi Jinping
epa

Gengi hlutabréfa hafa fallið víða um heim í morgun í kjölfar harðnandi yfirlýsinga í Bandaríkjunum og Kína um hækkun tolla á ýmsum vöruflokkum milli landanna. Er ákvörðunin talin tengjast því að í nýrri þjóðaröryggisstefnu stjórnvalda í Bandaríkjunum er talað um nauðsyn þess að hamla tæknilegum framförum Kínverja.

Á fimmtudag tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti um 25% tollahækkun á innflutningsvörur frá Kína að andvirði 60 milljarða Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 5.989 milljörðum íslenskra króna. Sagði Trump tollahækkanirnar refsingu vegna áratugalangra iðnaðarnjósna og stulds á höfundarrétti bandarískrar hönnunar og tækni.

Kínverjar svöruðu í sömu mynt, þó þeirra hækkanir voru lægri, eða á vörur að andvirði 3 milljarða dala. Leggst kínverski tollurinn á 128 mismunandi bandarískar vörur en stjórnvöld þar hafa sagt að til greina komi að bæta við fleiri vörum og vörutegundum.

„Við viljum ekki viðskiptastríð,“ sagði Cui Tiankai sendiherra Kína í Bandaríkjunum sem jafnframt hafnaði ásökunum Bandaríkjaforseta. „En við erum ekki hrædd við það... við munum svara í sömu mynnt...við munum sjá hverjir endast lengur.“

Vísitölur lækka um allan heim

S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 2,5% strax í gær, Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,43% og Dow Jones 30 vísitalan lækkaði um 2,93%. Hlutabréf í Boeing og Caterpillar lækkuðu einna mest, eða meira um 5%, en stór hluti af framleiðslu fyrirtækjanna beggja er báðum megin við Kyrrahafið. Markaðir í Bandaríkjunum opna eftir tæpa þrjá klukkutíma.

Hlutabréf víðar um heim hafa lækkað í kjölfarið, Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 4,51% á sama tíma og japanska yenið styrktist um 0,6% upp í 104,62 yen dalurinn, enda gjaldmiðillinn oft álitinn örugg höfn af fjárfestum á óvissutímum. Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 2,45% og CSI 300 vísitalan á meginlandi Kína lækkaði um 2,9% meðan Shanghai Composite vísitalan lækkaði um 3,39% áður en þær lokuðu í morgun.

Nú eru það aðallega kauphallir í Evrópu sem eru opnar og hafa þær allar farið lækkandi, FTSE 100 vísitalan í Bretlandi hefur lækkaði um 0,57% það sem af er degi og Euro Stoxx 50 vísitalan lækkaði um 1,19%, og SMI vísitalan í Sviss hafa lækkað um 0,50%.

Áhyggjur af viðskiptastríðinu koma ofan í það að markaðir vestan hafs eru enn að meta fyrstu stýrivaxtaákvörðun nýs formanns Seðlabanka Bandaríkjanna, Jay Powell að því er FT greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá tilkynnti bankinn um það fyrr í vikunni að stýrivextir hefðu verið hækkaðir um 0,25 prósentustig.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is