Samrunaviðræður milli Orange og Bouygues sem hafa verið í gangi undafarna mánuði hafa runnið út í sandinn. Fyrirtækin ætluðu að sameinast og þar með skapa félag sem myndi hafa sterka stöðu á fjarskiptamarkaði í Frakklandi.

Fjarskiptafyrirtæki í Frakklandi hafa átt í verðstríði síðustu mánuði. Innkoma smærri aðila hefur gert fjóru stóru fjarskiptafyrirtækjunum í Frakklandi erfitt fyrir. Samruninn var partur í áætlun fyrirtækjanna að standa orustuna af sér, fækka stóru fyrirtækjunum úr fjórum í þrjú og að auka við markaðshlutdeild sína á frönskum markaði. Tilkynnt var um það um helgina að félögin hefðu hætt samrunaviðræðum.

Hlutabréf í Orange lækkuðu um 4,55 % við opnun markaða í kjölfar þessara frétta. Hlutabréf í Bouygues fengu enn meiri skell, en þau féllu um 15,21 % við opnun markaða í Frakklandi.

Fyrirtækin sögðu að meginástæða þess að ekki verður af sameiningu er að sameiningin er erfið í framkvæmd og afstaða franskra yfirvalda. Samkeppnisyfirvöld í Frakklandi hafa sagt að til að félögin fengu að sameinast þyrfti að selja hluta rekstursins frá fyrirtækinu til að mynda ekki markaðsráðandi stöðu.