Gengi hlutabréfa myndavélaframleiðandans GoPro hefur hækkað um tæp 20% það sem af er degi eftir að fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Er ástæðan hækkunarinnar rakinn til þess að uppgjörið fór langt fram úr væntingum greiningaraðila.

Fyrir utan einskiptikostnað nam tap fyrirtækisins á tímabilinu 9 sentum á hlut en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir tapi upp á 25 sent á hlut samkvæmt frétt Reuters . Heildartap fyrirtækisins á tímabilinu nam 30,5 milljónum dollara og dróst saman um rúmlega 66% frá sama tímabili í fyrra.

Þá námu tekjur fyrirtækisins á tímabilinu 296,5 milljónum dollara en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að tekjur yrðu 269,6 milljónir dollara.

Þrátt fyrir hækkun dagsins er gengi bréfa GoPro langt undir 24 dollurum sem var útboðsgengi fyrirtækisins þegar það fór á markað árið 2014. Þegar þetta er skrifað stendur gengi bréfanna í 9,85 dollurum á hlut.