Hlutabréf í nokkrum af stærstu bönkum Grikklands hafa hríðfallið í verði á grískum hlutabréfamarkaði frá opnun viðskipta í morgun. Þannig hefur gengi hlutabréfa í Þjóðarbanka Grikklands lækkað um 9% og gengi bréfa í Alpha bank fallið um 10%. BBC News greinir frá þessu.

Lækkanirnar koma í kjölfar tíðinda um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefði kallað samningateymi sitt heim frá Brussel þar sem viðræður hafa staðið yfir við gríska embættismenn. Sagði AGS að enn væri langt í land með að samningar næðust við Grikki um ahendingu síðasta hluta neyðarlánapakkans sem Grikkland þarf nauðsynlega á að halda til að forðast greiðslufall í mánaðarlok.

Talsmenn AGS lögðu hins vegar áherslu á að viðræður við Grikki héldu áfram.