*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Erlent 3. nóvember 2020 19:08

Hlutabréf hækka fyrir kosningar

Hlutabréf vestanhafs hækka annan daginn í röð. S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 2% í dag og bréf Tesla um 5%.

Ritstjórn
Flökt á hlutabréfamörkuðum kann að vera mikið ef óvissa mun ríkja um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum.
epa

Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað í kringum tvö prósent frá opnun markaða en gengið er til kosninga vestanhafs seinna í dag. Þegar þetta er skrifað hefur Dow Jones vísitalan hækkað um 2,3% og S&P 500 vísitalan um tvö prósent. Hlutabréf hækkuðu einnig á mánudag.

Sagt er frá því á vef WSJ að skyldi Joe Biden, frambjóðandi Demókrataflokksins, vinna kosningarnar er líklegra en ella að nýr efnahagsaðgerðarpakki sökum veirufaraldursins verði settur á laggirnar. Slíkt ýti undir hækkun á hlutabréfamarkaði en aðgerðapakkinn gæti numið allt að þremur billjónum dollara. Fram kemur að ef Biden skyldi vinna er líklegra að verðbólga verði hærri en ella og að Bandaríkjadalur veikjist. 

Mikið flökt var á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í kringum síðustu kosningar, líkt og gert er ráð fyrir nú um mundir. Þá sérstaklega í ljósi þess hve margir hafa ákveðið að greiða atkvæði í pósti sem lengri tíma tekur að vinna úr. 

Að sögn Yahoo Finance er ekki víst að niðurstöður úr forsetakosningunum liggi fyrir fyrr en seinna í vikunni. Þar kemur enn fremur fram að yfir 100 milljónir Bandaríkjamanna hafi greitt atkvæði nú þegar. Það er yfir tveir þriðju af þeim sem greiddu atkvæði í kosningunum árið 2016.

Frá opnun markaða í dag hafa hlutabréf Tesla hækkað um fimm prósent og standa þau í um 420 Bandaríkjadölum hvert.