Hlutabréf á Aðalmarkaði Kauphallarinnar hafa hækkað nokkuð í verði það sem af er degi. Þannig hefur gengi bréfa VÍS hækkað um 2,07%, Icelandair um 1,74%, Sjóvá um 1,49% og N1 um 1,45%. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,88% það sem af er degi.

„Það virðast hafa verið stigin jákvæð skref í átt til lausnar á vinnumarkaði og ég held að það sé það sem skýrir þessar hækkanir að miklu leyti,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, um hækkanirnar en VR, LÍV, Flóabandalagið og Stéttarfélag Vesturlands nálgast nú samkomulag við Samtök atvinnulífsins.

Hann segir þetta einnig hafa áhrif á skuldabréfamarkaðinn þar sem langtímavextir hafi farið lækkandi.

„Skuldabréfamarkaðurinn ýtir líka við hlutabréfamarkaðinum og þau félög sem eru næmust fyrir breytingum á skuldabréfamarkaði, eins og tryggingafélögin, hafa verið að hækka í verði. Svo hækkar líka gengi þeirra félaga sem eru með marga starfsmenn innan raða þessara stéttarfélaga þar sem nú liggja fyrir drög að samningi, eins og t.d. Icelandair og Haga,“ segir Stefán Broddi.