Evrópskir fjárfestar virðast hafa tekið vel í það að samkomulag hafi náðst á milli Grikklands og evrópskra lánadrottna um neyðarlán til þeirra síðarnefndu til að reyna að vinna bug á miklum fjárhagsvanda grísku þjóðarinnar.

Tilkynnt var í morgun að samkomulag hefði náðst við Grikki eftir 17 klukkustunda samningafund. Þar kemur fram að Grikkir fái nýtt neyðarlán en þurfi í staðinn að grípa til ýmissa aðgerða heima fyrir, t.d. hvað varðar lífeyriskerfið og önnur opinber útgjöld.

Hlutabréf í Evrópu hækkuðu í kjölfar fréttanna. DAX vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 1,3 prósent líkt og CAC vísitalan í Frakklandi. Þá hækkaði breska FTSE vísitalan um 0,7 prósent. Einnig hækkaði evran eilítið og bætti upp fyrir fall sitt.

Grísk skuldabréf tóku einnig mikinn kipp í rétta átt, en ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf Grikkja snarlækkaði. Þá féll einnig ávöxtunarkrafan á spænsk og portúgölsk ríkisskuldabréf. Því skal haldið til haga að ávöxtunarkrafa og verð skuldabréfa sveiflast í sitt hvora áttina.