Seinustu tólf mánuðir hafa verið tími hlutabréfasjóða, en þeir hafa að meðaltali gefið langmesta ávöxtun á tímabilinu.

Þannig hafa sjóðir sem fjárfesta í erlendum hlutabréfum til að mynda skilað meðaltalsávöxtun upp á rúm 16%. Enginn af þeim sjóðum hefur gefið lakari ávöxtun en 12% ársávöxtun og mesta ávöxtunin er í KF Global Value sem Stefnir rekur, með tæplega 22% vöxt. Minnsta ávöxtun í erlendum hlutabréfum er í Sjóð 12 hjá Íslandssjóðum, 12,6%.

Hér ber þó að taka fram að gengi hlutabréfa getur sveiflast mjög hratt, og þar með hlutabréfasjóða. Íslensku hlutabréfasjóðirnir hafa líka gefið ágætlega af sér þó að munurinn á hæstu og lægstu ávöxtun sé mjög mikill. Meðaltalsávöxtun er 9,5% en lakasta ávöxtun á tímabilinu er 1,9% í Sjóð 6 hjá Íslandssjóðum. Mesti vöxtur var í sjóðnum Innlend hlutabréf hjá Júpíter, rúm 23%.

Ávöxtun í skuldabréfasjóðum hefur verið heldur dapurleg á tímabilinu. Allir skuldabréfaflokkarnir hafa gefið lakari ávöxtun en á seinustu árum. Lökust hefur ávöxtunin verið á löngum íslenskum skuldabréfum, þar af verst í sjóðnum Ríkisskuldabréf verðtryggð hjá Stefni, eða -3,9%. Raunar hefur enginn þeirra sjóða sem fjárfesta í þessum flokki skuldabréfa skilað jákvæðri ávöxtun á seinustu tólf mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .