Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð en í gær hækkuðu markaðir verulega eftir að forstjóri Citigroup sendi starfsmönnum bankans minnisbréf þar sem fram kom að rekstur bankans á fyrsta ársfjórðungi þessa árs væri líklega sá besti í tæp tvö ár.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem héldu áfram að leiða hækkanir í dag en fjárfestar vestanhafs þykjast sjá von um að lausafjárkrísan sé brátt á enda.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1%, Dow Jones um 0,1% og S&P 500 um 0,2%. Alla höfðu vísitölurnar þó hækkað nokkuð fyrr í dag en seinni part dags dró nokkuð úr hækkunum þar sem olíuverð lækkaði töluvert í dag sem olli því að olíu- og orkufélög drógu hlutabréfamarkaði niður.

Eins og fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir. Þannig hækkaði JP Morgan um 4,6%, Morgan Stanley um 8%, Bank of America um 7%, Wells Fargo um 6,4% og  Citigroup (sem hækkaði um 38% í gær) hækkaði um 6,2%.

Eins og fyrr segir lækkaði verð á hráolíu nokkuð en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 42,75 dali og hafði þá lækkað um 6,5% frá opnun markaða.