Hlutabréf héldu áfram að lækka í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,36%, Dow Jones um 1,86% og Standard & Poor's 500 um 1,84%.

AT&T símafyrirækið lækkaði um 5,5% í dag og hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi í næstum fimm ár að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá. Forstjóri AT&T sagði í dag að aldrei fyrr væri fyrirtækið að loka símum og internet tengingum en nú þar sem notendur séu að draga það að borga reikninga sína í meira mæli. Auk þess hefur sala nýjum símanúmerum lækkað um 3,9% milli ára.

Á meðan tvö fyrirtæki hækkuðu, lækkuðu níu á móti í Kauphöllinni í New York í dag. S&P 500 vísitalan hefur ekki verið lægri frá því í mars í fyrra eða 1390,18 stig. Símafyrirtæki í S&P 500 vísitölunni lækkuðu um 4,8% í dag, leidd sem fyrr segir af AT&T.

Fjármálafyrirtæki voru einnig að lækka í dag. Bæði Citigroup og J.P. Morgan lækkuðu um 4%, Bearn Stearns um 6,7% og Barclays um 1,1%. Þá lækkaði American Express kreditkortafyrirtækið um 2,9%.

KB Home tilkynnti um tap upp á 773 milljónir bandaríkjadala og lækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um 9,2% við þær fréttir.

Orðrómur hefur verið uppi um að Contrywide bankinn sé að undibúa gjaldþrotayfirlýsingu. Forsvarsmenn bankans vísa þessu á bug og segja ekkert slíkt á döfinni. Bankinn lækkaði um 28% í dag, eða um 2,17 bandaríkjadali niður í 5,47 dali. Bankinn lækkaði um 79% á síðasta ári en lausafjárstaða hans er slæm og þurfti hann að fá lán frá Bank of America.

Olíuverð hækkaði örlítið eða um 1,24 bandaríkjadali. Í lok dags kostaði tunnan 96,33 dali.

Market Watch hafði það eftir viðmælenda sínum að litlar vonir yrðu gerðar til fyrsta ársfjórðungs þessa árs og þá sérstaklega í húsnæðismálum þar sem lítið yrði um kaup og sölu á húsnæði fyrstu vikur ársins.