Hlutabréf héldu áfram að lækka í Bandaríkjunum í dag. Það voru helst fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkunina en flest þeirra lækkuðu í dag með Citigroup bankann í fararbroddi. Eins og greint hefur verið frá síðustu daga sagði forstjóri Citigroup starfi sínu lausu í gær og hefur bankinn tapað miklu fé undanfarið.

Nasdaq lækkaði í dag um 0,54%, Dow Jones um 0,38% og S&P500 um 0,5%. Klukkutíma fyrir lokun markaða hafði Nasdaq lækkað um 2,7% en mikil viðskipta á síðustu stundu fyrir lokun hækkuðu vísitölu Nasdaq aftur.

Það sem helst einkennir daginn er eins og fyrr segir talsverð lækkun fjármálafyrirtækja saman lækkuðu þau um 2,8% í dag og leiddu að mestu þá lækkun sem varð á mörkuðum.

Samkvæmt fréttaveitu Dow Jones eru það önnur fyrirtæki sem halda markaðnum uppi um þessar mundir. Þannig tilkynnti Burger King um 23% hagnað sinn. Í fréttinni kemur fram að horft er til annarra fyrirtækja en fjármálafyrirtækja næstu daga. Þannig er gert ráð fyrir að krísa fjármálafyrirtækja hafi ekki nauðsynlega áhrif á fyrirtæki sem ekki stunda fjármálaviðskipti daglega, til að mynda Apple og Google.

Að gefnu tilefni vill Viðskiptablaðið vekja athygli á því að frá og með deginum í dag munu fjármálamarkaðir vestanhafs loka kl. 21 á íslenskum tíma vegna breytingar á tímamismun.