Hlutabréfavísitölur í Kína lækkuðu lítillega í dag, en í gær var helstu kauphöllum lokað eftir mikið verðfall á hlutabréfum.

Samsetta vísitalan í Sjanghæ endaði í lækkun sem nemur 0,3%, en hún lækkaði mest um 3% í viðskiptum dagsins. Hang Seng vísitalan í Hong Kong sveiflaðist mikið í viðskiptum dagsins en hún endaði í 0,7% lækkun.

Fjármálaeftirlitið í Kína sagði að það sé að skoða frekari takmarkanir á viðskiptum í kauphöll sem eiga að hindra óhóflegt verðfall á bréfum. Meðal hugmynda sem eftirlitið er að skoða er að takmarka hversu stóran hluta hlutabréfa stórir hluthafar mega selja á hverju tímabili.

Seðlabanki Kína dældi einnig óvænt töluverðum fjármunum á markaðinn í dag til að hindra frekari verðlækkanir. Heildar upphæð innspýtingarinnar nemur 130 milljörðum júana, eða um 2.615 milljarðar króna.