Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu í dag eftir að hafa lækkað töluvert í gær og lítillega við opnum í morgun.

Þannig hækkaði FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu, um 1,3% í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

Að sögn Reuters búast fjárfestar við því að Seðlabanki Evrópu haldi áfram að lækka stýrivexti en bankinn mun tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sína á fimmtudag. Bankinn hefur síðustu tvo mánuði lækkað stýrivexti sína um 100 punkta en þeir eru nú 3,25%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 2,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 3,1%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 2,4% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,2%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan hins vegar um 0,6% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 4% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,5%.

Hækkun Vestanhafs

Á Wall Street í Bandaríkjunum hafa helstu hlutabréfavísitölur einnig hækkað nokkuð eftir að hafa einnig lækkað nokkuð í gær.

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í rúma tvær og hálfa klukkustund hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 3,6%, Dow Jones um 3,2% og S&P 500 um 3,7%.

Að sögn Bloomberg er það einnig von um fjárfesta um stýrivaxtalækkanir sem útskýrir hækkanir dagsins.