Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar auk þess sem tölur um aukinn hagvöxt í Bandaríkjunum hafði jákvæð áhrif á fjárfesta.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 1,4% en hafði um tíma í morgun lækkað um 0,7% þannig að vísitalan sveiflaðist nokkuð upp á við seinni part dags.

Eins og fyrr segir leiddu bankar og fjármálafyrirtæki hækkanir dagsins. Þannig hækkaði franski bankinn Credit Agricole um tæp 9%, mest allra banka í dag. Þá hækkuðu frönsku bankarnir BNP Paribas og Societe Generale um rúm 4%.

Bresku bankarnir hækkuðu einnig en Barclays hækkaði um 2,8%, Royal Bank of Scotland hækkaði um 4% og HBOS um 3,5%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1,2% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,6%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 2% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,1%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,3% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,1%.

Hækkun vestanhafs

Markaðir í Bandaríkjunum hafa nú verið opnir í um þrjá tíma og hafa hlutabréf hækkað frá opnun.

Þannig hefur Nasdaq hækkað um 0,9%, Dow Jones um 1,6% og S&P 500 um 1%.