Hlutabréf í Asíu hækkuðu í dag, þriðja daginn í röð, eftir stýrivaxtalækkun í Kína. Stýrivextir þar í landi eru nú 5,58% og nam lækkunin 108 punktum og var sú mesta í 11 ár að sögn Bloomberg.

Kína er stærsta viðskiptaland Japan, Suður-Kóreu og Ástralíu og gangur efnahagslífsins í Kína hefur því mikil áhrif á þessi lönd. Hlutabréfavísitölur í þessum löndum, og flestum öðrum á svæðinu þar sem opið var fyrir viðskipti, hækkuðu í dag. Í Japan hækkaði Nikkei um tæp 2%, úrvalsvísitala Suður-Kóreu hækkaði um 3,3% og í Ástralíu nam hækkunin 1,4%. Í Hong Kong nam hækkunin 3,6% og í Sjanghæ 2,2%.

Á Indlandi voru markaðir lokaðir eftir að meira en 100 manns létu lífið í hryðjuverkaárás í fjármálamiðstöð landsins, Mumbai, að sögn Bloomberg.