Hlutabréf hækkuðu í Hong Kong og víðar í Asíu, en nokkrir markaðir, þar með talið í Japan, voru lokaðir. Stærri fyrirtækin leiddu hækkanir í Hong Kong sem hækkaði um 1,6%. Hækkunin í Hong Kong eftir þennan síðasta viðskiptadag ársins nemur 39% á árinu. Í Pakistan hrapaði markaðurinn um 4,7%, en í dag var fyrsti viðskiptadagur eftir morðið á Benazir Bhutto, að sögn WSJ.

HSBC bankinn, sem vegur þyngst í Hang Seng vísitölunni í Hong Kong, eða 15%, hækkaði um 0,5% í dag. Yfir árið hefur bankinn þó lækkað um 8% og í WSJ kemur fram að fjárfestar hafi áhyggjur af áhrifum af undirmálslánakrísunni í Bandaríkjunum.