Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu í dag. Bloomberg fréttaveitan hefur eftir greiningaraðilum að hækkuninni valdi trú manna á að aðgerðir bandarískra húsnæðisyfirvalda muni koma á stöðugleika á húsnæðislánamarkaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Standard & Poor´s er markaðurinn nú sveiflukenndari en hann hefur verið í 70 ár. Vísitala Standard & Poor´s hefur nú hækkað eða lækkað um 1% eða meira 28 daga af árinu, eða rúmlega helming þeirra daga sem markaðir hafa verið opnir. Það er hæsta hlutfall slíkra daga síðan 1938.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 2% í dag eða 43,9 stig og er nú 2.253,97 stig. Það er 1,9% hækkun yfir vikuna. Dow Jones hækkaði um 2%, 240,57 stig og er nú 12.340,61 stig, en hún hækkaði um 3% í vikunni. Standard & Poor´s hækkaði um 2,2%, 28,9 stig og er nú 1.327,3 stig. Standard & Poor´s hefur einnig hækkað um 3% síðan síðasta föstudag.