Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag eins og áður hefur komið fram í dag hækkuðu markaðir strax við opnun í morgun og tóku enn frekar við sér eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna tilkynnti í dag að mögulega væri þörf á viðbótar björgunarpakka í Bandaríkjunum.

Viðmælendur Reuters fréttastofunnar segja fjárfesta vera jákvæða gagnvart slíkum hugmyndum.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 3,3% og er þetta annar viðskiptadagurinn í röð sem vísitalan hækkar.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 5,4%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 6,8% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,1%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 3,6% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,9%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 2,8%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 3,9% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 8,7%.