Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag í fyrsta skipti í þessari viku en að sögn Reuters fréttastofunnar binda fjárfestingar vonir til þess að björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda muni hafa jákvæð áhrif á markaði.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 2,2% en hefur að engu að síður lækkað um 25% það sem af er ári.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters. Þannig hækkaði Credit Agricole um 6,5%, Royal Bank of Scotland um 7%, UBS um 5,1% og Barclays um 7,1% svo dæmi sé tekið.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 2,4% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 2%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 2,7% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 2,4%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,4% eftir að hafa sýnt rauðar tölur stærstan hluta af deginum, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,3% en í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,9% og var þar með eina vísitalan sem lækkaði í Evrópu í dag.