Nikkei-vísitalan japanska féll um 4% í dag, en aðeins var opið fyrir hádegi á japanska markaðinum í dag eftir vikulangt hátíðahlé. Lokagildi hennar var 14.691 og hefur það ekki verið lægra síðan í júlí 2006. Topix-vísitalan þarlenda, sem nær til breiðari hóps fyrirtækja, lækkaði um 4,3%, sem var mesta lækkun hennar síðan hún var stofnuð árið 1949. Topix hefur ekki verið lægri síðan í október 2005.

Að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar má rekja lækkunina til þess að áhyggjur vaxi af því að eftirspurn fari dvínandi í Bandaríkjunum, stærsta útflutningslandi Asíuríkjanna, en Toyota lækkaði söluspá sína vestanhafs fyrir árið 2008. Nú áætlar fyrirtækið að sala aukist um 1-2% á árinu, samanborið við 3% áður.

40.000 störf bættust við í Bandaríkjunum í síðasta mánuði, borið saman við 173.000 í nóvember, að því er fram kom í tölum frá ADP Employer Services í gær. Búist er við tölum um að atvinnuleysi vestra hafi aukist í 4,8% í desember.

„Bandarískt efnahagslíf hægir meira og meira á sér,“ hefur Bloomberg eftir Yoshihisa Okamoto, sem er sjóðstjóri hjá  Mizuho Asset Management Co. í  Tókýo.