Hlutabréfamarkaðir lækkuðu talsvert í Evrópu í dag og er þetta þá sjötti dagurinn í röð sem hlutabréf lækka.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en að sögn Reuters fréttastofunnar horfa fjármálafyrirtæki fram mikla erfiðleika við endurfjármögnun sem þó er nauðsynleg ætli þau sér að lifa af núverandi krísu á mörkuðum.

Þannig lækkaði HSBC um 10%, Barclays um 14,3%, Royal Bank of Scotland um 18,4% og HBOS um 13,5%, BNP Paribas um 7% og Credit Suisse um 8,6% svo dæmi séu tekin.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur Evrópu lækkaði um 4,3% og hefur nú ekki verið lægri í um sex vikur.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 5,1% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 4,6%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 4,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 2,8%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 4,7%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 4,6% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 4,5%.

Einnig lækkun vestanhafs

Neikvæðar tölur um smásölu í desember hafa haft veruleg áhrif á markaði í Bandaríkjunum það sem af er degi. Þá heldur olíuverð áfram að lækka sem veldu lækkun félaga á borð við Chevron og Exxon.

En líkt og í Evrópu er það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagins.

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í tæpa fjóra tíma hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 3,1%, Dow Jones um 3,1% sömuleiðis og S&P 500 um 3,4%.