Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag en japönsk yfirvöld birtu í morgun tölur sem gefa til kynna að útflutningur frá Japan fari minnkandi auk þess sem efnahagsástandið í Suður Kóreu fer sífellt versnandi að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 3,2% í dag og hefur nú ekki verið lægri frá því í maí 2004 en vísitalan hefur lækkað um 46% það sem af er ári.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 2,5% en hafði um tíma lækkað um 7,6% í dag. Útflutningur í Japan jókst aðeins um 1,5% í september en bæði greiningaraðilar og hið opinbera höfðu gert ráð fyrir um 5,1% aukningu í september og eru tölurnar því eins og gefur að skilja mikil vonbrigði.

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 3%, í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 1,4% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 4,4%.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 2,6% en í Suður Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 9,4% sem er mesta dagalækkun hennar í um 20 ár að sögn Bloomberg.