Hlutabréf í Asíu hækkuðu í verði dag og hafa ekki hækkað jafn mikið á einum degi það sem af er ári. MSCI Asia Pacific vísitalan hafði hækkað um 0,9% rétt fyrir lokun markaða í Tókýó, eftir að hafa lækkað um 0,7% fyrr í dag. Nikkei vísitalan japanska hækkaði um 0,5% og stóð í 14.599 stigum.

Fyrirtæki tengd málmiðnaðinum, Newcrest Mining Ltd. og Jiangxi Copper Ltd., hækkuðu mest í dag, enda varð aukin eftirspurn til þess að verð á málmum hækkaði stórlega. Bloomberg fréttaveitan hefur eftir Lu Yizhen, sjóðstjóra í Sjanghæ, að hækkandi hráefnisverð hafi „gefið fjárfestum afsökun fyrir því að kaupa hlutabréf í málmfyrirtækjum, sem eru á meðal eftirlætis markaðarins um þessar mundir.“