Hlutabréf í Asíu lækkuðu í verði í dag - MCSI Asia Pacific vísitalan að Japan frátöldu hafði lækkað um 1,1% rétt fyrir kl. 15 í Hong Kong og er það mesta lækkun hennar síðan 17. desember. Markaðir í Japan eru lokaðir í dag.

Spár voru birtar í Suður-Kóreu, þess efnis að hagvöxtur yrði að öllum líkindum minni en búist hefði verið við og sala á útfluttum vörum drægist saman. Gengi hlutabréfa í Samsung Electronics Co. lækkaði og einnig gengi hlutabréfa DBS Group Holdings Ltd., stærsta banka Singapúr, eftir að opinberar tölur sýndu samdrátt í landsframleiðslu þar í landi í fyrsta skipti í 18 ársfjórðunga.