Hlutabréf í Asíu hækkuðu í viðskiptum dagsins. Markaðir í álfunni virðast því taka vel í stýrivaxtahækkun Seðlabanka Bandaríkjanna, en bankinn hækkaði stýrivexti í gær í fyrsta skipti í sjö ár.

Nikkei hækkaði um 1,6% í viðskiptum dagsins, S&P/ASX 200 hlutabréfavísitalan í Ástralíu hækkaði um 1,5% og Kospi vísitalan hækkaði um 0,4%.

Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,53% og samsetta vísitalan í Sjanghæ hækkaði um 1,8%.

Bandaríkjadalur styrktist lítillega gagnvart japanska yeninu, en veikt yen er gott fyrir útflutningsgreinar Japan.