Þegar þetta er ritað hefur gengi hlutabréfa í verslunarrisanum Costco lækkað um 7,5% frá opnun markaða vestanhafs síðastliðinn föstudag.

Costco birti uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung á sínu rekstrarári eftir lokun markaða í Bandaríkjunum síðastliðinn fimmtudag. Tekjur Costco námu 42 milljörðum Bandaríkjadala á tímabilinu og jukust um 16% milli ára vegna 26 nýrra vöruhúsa (meðal annars á Íslandi), aukinna aðildargjalda og  aukinnar veltu. Þá jókst sala Costco á netinu um 27% milli ára á fjórðungnum. Rekstrarkostnaður nam rúmlega 40 milljörðum Bandaríkjadala og jókst um 12% milli ára. Rekstrarhagnaður Costco nam 1.450 milljónum dala og var framlegð 3,43%. Þá nam hagnaður Costco 919 milljónum dala (18% aukning milli ára), sem jafngildir um 95 milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt frétt Forbes var uppgjör Costco umfram væntingar, en fjárfestar hafa hins vegar áhyggjur af framlegð og langtímahorfum Costco. Þá virðist sem tilkynning Costco um að fara að bjóða upp á heimsendingarþjónustu hafi ekki dregið úr áhyggjum fjárfesta.

Frá því í byrjun maí hefur gengi hlutabréfa í Costco lækkað um 15,4%, meðal annars vegna rekstrarerfiðleika á bandarískum smásölumarkaði og aukinna umsvifa Amazon.