Hlutabréfamarkaðir í Evrópu, sem náðu sex ára lágmarki á föstudag, héldu áfram að lækka í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins auk bílaframleiðanda.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 0,7% í dag eftir að hafa þó verið á pari fram eftir degi. Vísitalan hefur nú lækkað um 12% það sem af er ári.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem helst leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði UBS um 9%, Deutsche Bank um 5% og Barclays um 6,2%.

Royal Bank of Scotland hækkaði þó um 9,8% eftir að orðrómur fór í gang um að bankinn undirbúi nú að stofna sér kennitölu þar sem eitruð veð bankans verða geymd og aðskilin frá meginbankastarfssemi bankans.

Þá lækkuðu bílaframleiðendurnir BMW, Daimler, Porche, Volkswagen, Peugeot, Renault  og Fiat um 4 - 10%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,9%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,1%.

Í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi voru markaðir lokaði en í í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,4%.