Bankar og tryggingafélög leiddu hækkanir á hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag auk þess sem tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum þykja gefa til kynna að ró sé að færast á markaði að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 1,7% í dag og hefur nú hækkað þrjár vikur í röð. Vísitalan hefur nú hækkað um 6% s.l. mánuð að sögn Reuters en hefur engu að síður lækkað um 10% það sem af er ári.

Spænsk fyrirtæki voru í brennidepli í dag og hækkaði spænski bankinn Banco Santander um 4% og spænska símafyrirtækið Telefonica um 3,3%.

Þá hækkuðu bankar almennt í Evrópu. Royal bank of Scotland, UBS, Credit Suisse, Barcleys og BNP Paribas hækkuðu allir á bilinu 3% - 5,6%.

Þá hækkuðu tryggingafélög einnig í dag. Franska tryggingafélagið AXA hækkaði um 3,9%, þýska félagið Allianz um 2% og bresku félögin Old Mutual í Lundúnum um 5,2 og Aviva um 4,5%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,1%. Þá hækkaði AEX vísitalan í Amsterdam um 1,2%, DAX vísitalan í Frankfurt um 1,4% og CAC vísitalan í París um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,9% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,25%.