Hlutabréfamarkaðir í Evrópu fara heldur betur vel af stað í dag en við lok markaða í gær stefndi í verstu viku á mörkuðum í Evrópu frá 11. september 2001 eins og greint var frá í gær.

Þegar þetta er skrifað, kl. 09:00 hefur FTSEurorfirst 300 vísitalan hækkað um 5,2%. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 3,5% í vikunni og um 26% frá áramótum.

Líkt og í Asíu í morgun eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða hækkanir dagsins. Þannig hefur Barclays til að mynda hækkað um rúm 30%, Credit Agricole um 16%, Royal Bank of Scotland um 38,8%, Fortis um 12% og BNP Paribas um rúm 10% svo dæmi séu tekin um gífurlegar hækkanir.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkunina til mikilla væntinga fjárfesta til þess að aðgerðir bandarískra yfirvalda muni binda enda á lausafjárkrísuna sem nú stendur yfir auk þess sem aukið fjármagn í umferð muni koma flæði á markaði á ný.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 6,9%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 5,5% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 4,3%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað un 6,1% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 5,2%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 4,1%, í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 5,9% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 6,2%.