Hlutabréf í samskiptasíðunni Facebook hafa lækkað mikið í það sem af er degi á Wall Street. Nemur lækkunin 5,18% og standa hlutabréf félagsins í 18,1 dal á hlut.

Lækkunin er í kjölfar þess að bankarnir Bank of America-Merrill Lynch og Bank of Montreal lækkuðu verðmöt sín á fyrirtækinu, en báðir bankarnir skrifuðu undir útboðslýsingu þess. Þrátt fyrir það eru verðmötin mun hærri en núverandi gengi fyrirtækisins, eða á bilinu 23-25 dalir á hlut.

Hlutabréf Facebook hafa því lækkað um 52% frá því félagið var sett á markað í maí.