GlaxoSmithKline, annar stærsti lyfjaframleiðandi heims, tilkynnti í gær að hagnaður félagsins fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi hefði numið 1,896 milljörðum punda, sem er nákvæmlega jafnmikið og á sama tímabili í fyrra. Félagið sagði að ástæðan fyrir því að hagnaðurinn hafi ekki aukist á milli ára væri meðal annars sú að sala á sykursýkislyfinu Avandia hefði minnkað.

Lyfjaframleiðandinn hyggst hins vegar ekki breyta afkomuspá sinni fyrir núverandi ár og gerir ráð fyrir því að hagnaður á hvern hlut muni aukast um 8% til 10%. Gengi hlutabréfa í félaginu hækkaði um 3,9% í kjölfar afkomutilkynningarinnar.