Gengi hlutabréfa á grískum markaði hafa lækkað mikið það sem af er degi vegna ótta um áætlanir nýrrar ríkisstjórnar landsins. BBC News greinir frá málinu.

Þannig hefur ASE-vísitalan lækkað um 7,6% það sem af er degi, en hún hefur fallið um 10% frá því ný ríkisstjórn tók við völdum fyrir þremur dögum síðan. Hennar helsta stefnumál er að fá lánardrottna landsins til þess að fallast á niðurfellingu skulda auk þess að auka útgjöld ríkissjóðs.

Þá hefur ríkisstjórnin gefið út að hætt verði við sölu á 30% hlut ríkisins í orkufyrirtæki landsins sem fyrri ríkisstjórn hafði sett af stað, auk þess sem uppsagnir þúsunda ríkisstarfsmanna hafa verið dregnar til baka.

Hlutabréf í grískum bönkum hafa fallið mest frá því að nýja stjórnin tók við, en gengi hlutabréfa í bankanum Piraeus hefur lækkað um 20%.