Topix-vísitalan, sem er víð hlutabréfavísitala í Japan, féll um 1,6% í dag og hefur ekki verið lægri í 25 ár, eða frá því í janúar 1984. Nikkei, sem er þrengri vísitala, lækkaði um 1,9% og hefur ekki verið lægri frá því undir lok október í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Reuters, sem segir að hlutabréf banka hafi dregið markaðinn niður þar sem fjárfestar hafi áhyggjur af stöðu evrópskra banka.

DJ Asia-Pacific vísitalan lækkaði um tæp 2% í dag og flestir markaðir í Asíu lækkuðu. Markaðurinn í Sjanghæ hækkaði hins vegar um 1,5%.

Hlutabréf í Evrópu hafa lækkað um 2,5% í upphafi dags, samkvæmt Euronext 100 vísitölunni. Að sögn MarketWatch leiða fjármálafyrirtæki lækkunina í álfunni.

Lækkunin í Asíu og Evrópu fylgir í kjölfar lækkunar í Bandaríkjunum, en þar endaði DJIA-vísitalan í sex ára lágmarki í gær.