Íþróttavörurisinn Nike hagnaðist meira en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir og hlutabréf í fyrirtækinu hafa aldrei verið verðmætari. Á öðrum ársfjórðungi hagnaðist Nike um 0,90 dollara á hlut, sem er meira en þeir 0,86 dollarar á hlut sem búist var við.

Undanfarið ár hefur verið ansi gott fyrir Nike, en á eftirmarkaði í gær seldust hlutir í fyrirtækinu á 136 dollara, sem var 3 prósenta hækkun frá deginum áður. Alls hagnaðist fyrirtækið um 7,7 milljarða dollara.

Sala í Kína jókst um 34 prósent ef ekki er tekið tillit til gengisbreytinga, en Kína er einn örast vaxandi markaður fyrirtækisins. Sterkur Bandaríkjadollari hefur haft neikvæð áhrif á sölur bandarískra fyrirtækja á árinu og hefur neikvæð áhrif á hagnaðartölur. Það á líka við um Nike en fyrirtækið er þó að komast afar vel frá styrkingu dollarans.

Nike ætlar sér á fimmtudag að skipta upp hlutabréfum sínum í 2-fyrir-1, þannig fjöldi hluta tvöfaldast og helmingast að virði.