Bílaframleiðandinn Tesla skilaði tapi sem nemur 229,9 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi. Þetta er hærra tap en búist var við en það er rekið til aukins þróunarkostnaðar við nýjan jeppling bílaframleiðandans, Model X. The Wall Street Journal greinir frá.

Þrátt fyrir tapið voru fjárfestar ánægðir þar sem fyrirtækið hélt sig við áætlaðar sölutölur, en tekjur félagsins jukust um 10% milli ára. Tesla gerir ráð fyrir að selja á milli 17.000 og 19.000 á fjórða ársfjórðungi og ef það næst þá mun félagið ná söluáætlunum sínum fyrir árið.

Hlutabréf í félaginu hækkuðu um 11% eftir lokun markaða.