Hlutabréf í fjölmiðlafyrirtækinu Time Warner Inc hafa fallið í verði um 12% síðan að tilkynnt var að fjölmiðlarisinn Rupert Murdoch sem á Twenty-First Century Fox hafi dregið tilboð sitt í fyrirtækið upp á 80 milljarða dollara til baka. Ástæða þess að hann ákvað að draga tilboðið til baka voru slæmar undirtektir Time Warner og það að fyrirtækið taldi sig enn verðmætara.

Tilkynningin kom fjárfestum á óvart sem höfðu ýtt undir hækkun hlutabréfaverðs Time Warner eftir að tilkynnt var að Twenty-First Century Fox höfðu gert tilboð í fyrirtækið. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hafði náð hæsta verði í 12 mánuði um miðjan júlí þegar það nam 88,13 dollurum.

Frá því að Murdoch tilkynnti að hann hefði dregið tilboð sitt til baka hefur hlutabréfverð Twenty-First Century Fox hækkað um 10%.