Verð hlutabréfa í Tryggingamiðstöðinni hefur hækkað um 2,48% í morgun, en viðskiptin hafa numið 34 milljónum króna. Hálfs árs uppgjör félagsins var birt í gær og fór kynning á því fram í morgun.

Í uppgjörinu kemur fram að TM hagnaðist um 1.191 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæplega 47% meira en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 811 milljónum króna.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, er ánægður með afkomuna á fyrri hluta ársins. Haft er eftir honum í tilkynningu að aukin framlegð af vátryggingastarfseminni skýrist af því að viðskiptavinum hefur fjölgað nokkuð á fyrri helmingi ársins á sama tíma og tjónakostnaður lækkaði.